Viðurkenning

Þann 9. júní 2022 var Þóhallur Ólafsson framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar sæmdur gullmerki Landssambands sumarhúsaeigenda fyrir vel unnin störf í öryggismálum fyrir sumarhúsaeigendur sem felast í aðkomu Neyðarlínunnar að verkefninu allt frá upphafi.

Tuttugu ár eru liðin frá því að LS hratt af stað einu stærsta öryggisverkefni á landsvísu sem var hnitsetning allra sumarhúsa inn í öyggisnet Neyðarlínunnar. Um 60% frístundahúsa eru í dag komin með þessi öryggisnúmer en allt frá upphafi var stefnt að því að öll sumarhús landsins yrðu merkt. Verkefninu er því hvergi nærri lokið.

Í grein 9.8.7. í byggingareglugerð nr. 112/2012 frá 2020 er farið fram á að auðkennisnúmeri skuli vera til staðar á frístundahúsum sem gefa má upp til neyðarlínu og skuli vera á útvegg. Öryggisnúmerið sem notað er í þessi verkefni er auðkennisnúmer frístundahúsa.

Tilgangur verkefnisins var, og er, að auka öryggi í frístundahúsabyggðum en algengt hefur verið að í neyðartilvikum hafi björgunaraðilar farið villu vegar vegna ónákvæmrar upplýsingar um staðsetningu og dýrmætur tími tapast. Hvert sumarhús fær sitt eigið öryggisnúmer sem gefið er upp hjá Neyðarlínunni 112 þegar vá ber að dyrum. Starfsfólk Neyðarlínunnar leiðbeinir björgunaraðilum að sumarhúsinu en hnitsetningin er svo nákvæm að aðeins er um tveggja metra skekkjumörk að ræða. Öryggisnúmerin hafa sannarlega sannað gildi sitt.

Auk Neyðarlínunnar er verkefnið unnið í góðri samvinnu við stjórnsýslustofnanir eins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, (áður Fasteignamat ríkisins), Vegagerðina, Þjóðskrá (áður Fasteignamat ríkisins) og Landmælingar Íslands

Sveinn Guðmundsson formaður LS færði Þórhalli Ólafssyni framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar gullmerkið ásamt viðurkenningarskjali því til staðfestingar.