Rotþró

Rotþrær

Skólp er mengunarvaldur alls staðar þar sem því er veitt út í umhverfið. Skólpmengun felst í uppsöfnun lífræns úrgangs sem er saurmengaður og inniheldur mikið magn örvera. Skólp sem er ekki rétt meðhöndlað mengar vatn og getur verið hættulegt heilsu manna og dýra.

Þar sem ekki er til staðar frárennsliskerfi á vegum sveitarfélaga skal samkvæmt byggingarreglugerð nr. 441/1998 leiða skólp um rotþró og siturlögn. 

Gerð er krafa um tveggja þrepa hreinsun á skólpi frá hýbýlum manna. Tveggja þrepa hreinsun felst í rotþró (fyrsta þrep) og siturlögn (annað þrep) sem beisla úrgangsefni í skólpinu og stuðla að niðurbroti á mengunarefnum áður en þau berast út í umhverfið. Í köldu loftslagi eins og á Íslandi er hætt við að rotnun í rotþrónni verði fremur hæg og uppsöfnun á seyru meiri. Ýmis þvotta- og hreinsiefni, einkum sótthreinsiefni, sem berast í rotþrær með frárennsli geta dregið úr gerjun og rotnun, sérstaklega ef um ótæpilegt magn af efnum er að ræða.

 

Kröfur um rotþrær og siturlagnir er að finna í byggingarreglugerð nr. 441/1998, reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, samþykktum sveitarfélaga og leiðbeiningum. 

Við val á rotþró, staðsetningu og framkvæmd er best að leita ráða sérfræðinga og lesa Leiðbeiningar um rotþrær og situlagnir frá Umhverfis-stofnun.