Eldvarnir

Vinnureglur - Reglugerðir - Brunahætta - Eldvarnir innanhúss & utanhúss - Fyrstu viðbrögð

Vinnureglur

Landssamband sumarhúsaeigenda kom að mótun vinnureglna í brunavörnum í skógi og öðrum gróðri og útgáfu greinargerðar og fræðsluefnis – sjá grodureldar.is

Þetta er brýnt öryggismál fyrir sumarhúsaeigendur enda gróður víða orðinn mikill og þéttur.

Reglugerðir

Enginn má halda eða standa fyrir brennu nema að fengnu skriflegu leyfi lögreglustjóra. Bálköst skal ekki staðsetja þar sem hætta er á að eldur eða neistaflug geti kveikt í gróðri. Ítarlegar skilgreiningar og upplýsingar um notkun á flugeldum og meðferð elds og varnir gegn  gróðureldum er að finna í þar til gerðum reglugerðum:

Þegar gróður er þurr þarf aðeins lítinn neista til að kveikja eld. Í langvarandi þurrkum og hvassviðri skal sýna sérstaka aðgát og fara varlega með vélar og eld útivið. Dæmi eru um gróðurbruna hér á landi út frá sígarettum, flugeldum, bílvélum og einnota útigrillum svo fátt eitt sé nefnt

Brunahætta

Þar sem sina, gras, mosi, kjarr og tré eru stærstu flokkar brennanlegs gróðurs er mikilvægt að huga að því að lágmarka hann næst húsinu og mynda öryggissvæði í kringum það, allt að 1,5 m umhverfis hús. Ef húsið stendur í brekku þarf öryggissvæðið að ná lengra niður brekkuna. Fjarlægja trjágreinar sem sliga að húsinu og velja trjátegundir eftir því hve eldfimar þær eru. Undir veröndum sumarhúsa á ekki að safna rusli eða geyma bensín, gaskúta, hjólbarða eða áburð. Mikilvægt er að huga að flóttaleiðum og hafa til staðar útbúnað til lágmarks eldvarna.

Lista yfir þau atriði sem þarf að hafa í huga við mat á brunahættu eru a finna í greinagerð á grodureldar.is

Eldvarnir innanhúss

Slökkvitæki eiga að vera aðgengileg, vel sjáanleg og ekki má hylja þau eða torvelda aðgang að þeim með fatnaði eða dóti. Æskilegir staðir eru t.d. við innganga, í holi eða í eldhúsi. Einnig gæti þurft að staðsetja slökkvitæki í bílskúr eða bátaskýli. 

Í sumarhúsum skal hafa eitt eða fleiri handslökkvitæki með léttvatni. Algeng stærð er 6-9 kg. Yfirfara skal slökkvitæki árlega hjá viðurkenndum aðila. Ákveða þarf gerð slökkvitækis eftir því hvers konar eld er líklegt að þurfi að slökkva og einnig eftir því hvar tækið er staðsett. Valið stendur á milli léttvatns, vatns, dufts eða kolsýrutækis. Í skýrslu nefndarinnar er að finna sundurliðun á gerð þessara tækja sem auðvelda valið. 

Eldvarnarteppi skal vera staðsett nærri eldavél og ekki er verra að hafa eitt við grillið. Reykskynjari skal vera í öllum rýmum með raftækjum, þ.e. svefnherbergjum/-lofti, stofu og eldhúsi. Einnig í þvottahús og bílskúr. Gott er að hafa reykskynjara samtengda ef hægt er. Hvort velja skuli jónískan eða optískan skynjara fer eftir aðstæðum – sjá frekari upplýsingar í greinagerð. Aðra skynjara getur verið nauðsynlegt að setja upp, s.s. hita- og gasskynjara eða kolsýringsskynjara. Björgunarstiga skal setja upp við björgunarop á svefnlofti, flóttaleið út úr húsi þarf að vera trygg og fastanúmer hússins vel sýnilegt innandyra.

Eldvarnir utanhúss

Garðslanga skal ná um það bil tvo hringi í kringum húsið með hraðtengi við krana og slangan geymd á vísum stað. Eldklöppur eða skóflur til að slökkva eld í gróðri skulu vera utan á húsinu, strákústur aðgengilegur og fastanúmer vel sýnilegt utan á húsinu.

Fyrstu viðbrögð

Rétt viðbrögð og forvarnir við gróðureldum skipta sköpum. Hverskonar meðferð elds við sumarhús getur valdið íkveikju, s.s. reykingar, grill, bálkestir, sjálfsíkveikja í olíublautum tuskum, heitar vélar eins og mótorsagir eða sláttuorf sem lögð eru niður í þurran gróður o.fl. 

 

     Viðbrögð við eldsvoða við eða í húsi                            

  • Bjargið fólki út úr húsi – munið að hafa eigið öryggi alltaf í fyrirrúmi.   
  • Hringið í Neyðarlínuna, 112, og gefið upp fastanúmer tiltekins sumarhúss. Afturkallaðu aðstoð ef aðstæður breytast.
  • Slökkvið eld með eldvarnarteppi/slökkvitæki/brunaslöngu ef unnt er. Munið að hafa eigið öryggi alltaf i fyrirrúmi.

     Viðbrögð við gróðureldi sem berst að húsi                  

  • Hringið sem fyrst í Neyðarlínuna og gefið upp fastanúmer tiltekins sumarhúss. Afturkallaðu aðstoðina ef aðstæður breytast
  • Bjargið fólki frá eldinum.
  • Gerið nágrönnum ykkar sem gæti staðið hætta af viðvart.
  • Notið klöppur og brunaslöngu/garðslöngu við slökkvistarf.
  • Reynið að hindra að eldurinn berist í húsið.

Sækja skal að eldi undan vindi þannig að reykmengun hindri ekki yfirsýn og aðgerðir. Reykur frá gróðureldum í of miklu magni getur verið lífshættulegur. Klöppur, skóflur eða önnur áhöld og vatn ættu alltaf að vera tiltæk. Sé ekki ráðið við eldinn, t.d. vegna hvassviðris, skal gera ráðstafanir og mynda eldvarnarlínu í nægilegri fjarlægð undan vindi, t.d. með því að bleyta í gróðri eða ryðja honum burt.

Nánari upplýsingar er að finna á grodureldar.is