Aðalfundur 2017

Fundur haldinn 27. mars 2017 í húsakynnum SÍBS í Síðumúla, Reykjavík

Sveinn Guðmundsson, formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Tillaga um Óskar Guðjónsson sem fundarstjóra, samþykkt.

Tillaga um Sigrúnu Jónsdóttur sem fundarritara, samþykkt.

Óskar hóf fundinn með því að kanna hvort löglega hafi verið til hans boðað. Engar athugasemdir voru gerðar um boðun fundarins og lýsti fundarstjóri yfir lögmæti fundarins.

Fundargerð síðasta aðalfundar hefur verið birt á heimasíðu LS og í sumarhúsahandbókinni 2016.

Gestur fundarins Margrét Hauksdóttur, forstjóri Þjóðskrár kynnti  nýja aðferðarfræði við árlegt fasteignamat, skráningu og mat. Það sem fram kom í máli hennar var m.a. að fasteignamat á að spegla fasteignaverð í febrúar hvers árs og gerir það gangverð fasteigna.

Þá fór hún yfir markaðsaðferðir íbúða, tekjumatsferð og kostnaðaraðferð.

Árið 2017 verða sumarhús í  markaðsleiðréttu  fasteignamati. Endurmat sumarhúsa er til 31. maí, miðað við febrúar 2017 og gildir fyrir 2018 og verður byggt á þinglýstum kaupsamningum. Haldinn verður kynningafundur um fasteignamat og frestur gefinn til athugasemda. Eigendur geta hjálpað til við að leiðrétta fasteignamat sumarhúsa sinna með því að fylla út eyðublað á skra.is – hægt er að skila því rafrænt, tilkynningarseðill (Island.is). Fasteignamat  bústaða er miðað við meðalgæði. Hægt verður að senda inn á Þjóðskrá til að koma inn réttum upplýsingum um nýjar forsendur bústaðaeigenda til að upplýsingar um rétt fasteignamat og forsendur til að hafa rétt brunabótamat. Reynt verður að tryggja að sama sé um allt land. Hægt verður að sjá fjölda sumarhúsa í hverjum landshluta. Það er einnig hægt að sjá að verð sumarhúsa á Suðurlandi hefur hækkað meira en fjölbýli. Margrét bauðst til að svara spurningum fundargesta.

Garðar Briem tók til máls og benti á að hann ætti sumarhús í Heiðmörk. Landeigandi þar er Orkuveita Reykjavíkur.  Garðar benti á það að sumarhúsaeigendur þar hafa unnið þrjá áfangasigra og barist í 8 ár. Garðar spurði hvernig Þjóðskrá Íslands líti á fasteignamat á sumarhúsum á þessu landsvæði. Ef ekki eru til kaupsamningar þá er erfitt að finna kaupverð og fá út fasteignamat. Ennfremur spurði Garðar hversu líklegt er að fm verði lækkað á þessu svæði. Margrét gat ekki svarað en vísaði til að um Stjórnsýsluákvörðun gæti verið að ræða  og einnig mat fasteignamatsnefndar.

Ólafur Ólafsson spurði hvert nýtt fasteignamat myndi leiða til.  Margrét taldi ómögulegt að segja um það á þessu stigi.

Fundarstjóri hvatti frístundahúsaeigendur til að fara inn á skrá.is og grúska þar.

Guðjón Stefánssson spurði hvernig mat á staðsetningu sumarhúsa kæmi inn til virðis.  Margrét benti á það að kaupverð frístundahúsa í dag að 100 km frá verslun og þjónustu gerir kaupverð hærra.

Margréti Hauksdóttur var  þakkað fyrir greinargott erindi og svör.

Sveinn Guðmundsson, formaður LS flutti skýrslu stjórnar.

Farið var yfir rekstur og starfsemi Landssambandsins, kom m.a. fram að mikið hefði verið leitað til skrifstofunnar með ýmis konar vandamál sem tengjast samskiptum manna aðallega við landeigendur vegna endurnýjunar leigusamninga svo og samskiptum innan félaga. Fundað er með frístundahúsafélögum og stjórnum þeirra um sérvandamál þeirra. Þá voru haldnir fundir með opinberum aðilum um ýmis hagsmunamál sambandsins.

Sveinn gat þess að sambandið hefði verið 25 ára frá fyrra ári, þ.e. 27 október 2016 og fór yfir aðdraganda stofnunar sambandsins og minntist fyrsta formanns þess, þ.e. Kristjáns Jóhannssonar.

Sveinn kom að því í skýrslunni hver væri tilgangur sambandsins sem er m.a. að gæta hagsmuna félagsmanna gagnvart opinberum aðilum og öðrum. Sambandið vill stuðla að náttúruvernd með góðri umgengni og virðingu fyrir landi og gróðri, ennfremur stuðla að og auka öryggi íbúa í sumarhúsum með velferð þeirra í huga.

Þá voru útgáfumál rædd, þ.e. Sumarhúsahandbókin og hvatti hann félagsmenn að nota þann vettvang til að koma á framfæri upplýsingum og fróðleik.

Þá gerði Sveinn grein fyrir samstarfi við Þjóðskrána vegna verðmats á frístundahúsum og að efla öryggi í sumarhúsum með öryggisnúmerum.

Sveinn benti á það að lagasetning í frístundahúsabyggðinni hefði verið mikil réttarbót en nauðsynlegt væri að endurskoða lögin og er sú vinna enn í gangi.

Þá var rætt um söluhagnað af sölu frístundahúsa og að sambandið væri að beita sér fyrir breytingu á lögum um tekjuskatt að því er varðar skattlagningu söluhagnaðar sumarbústaða þannig að um skattlagningu hans gildu sömu reglur og gilda um skattlagningu söluhagnaðar af íbúðarhúsum.

Þá kom fram að formaður sambandsins mætti á fund hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu nýlega til að ræða reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp.  Fyrir liggur að endurskoða þurfi reglugerðina.

Þá var rætt um lögheimili í frístundahúsabyggðinni og stöðu þeirra mála í dag.

Gerð var grein fyrir málum er fóru fyrir kærunefnd húsamála fyrir félagsmenn. Öll málin voru afgreidd á jákvæðan hátt fyrir félagsmenn fyrir nefndinni á árinu 2016. 

Í máli formanns kom fram að nú eru 70 frístundhúsafélög í LS. Félagafjöldi þeirra er samtals 2.550. Með einstaklingsaðild eru 1.179. Samtals eru því félagsmenn 3.682.

Formaðurinn taldi mikilvægt að styrkja yrði sambandið og tryggja að fleiri félagar kæmu til liðs við samandið. Félagsmenn geta ávallt hringt inn til sambandssins með ráðgjöf.  Lögfræðiþjónusta er veitt til félagsmanna með miklum afslætti.  Þá gefur sambandið út handbók árlega sem dreift er til félagsmanna. 

Sambandið vaktar frístundahúsabyggðina með umsögnum til Alþingis. Mikið er leitað til sambandssins bæði af félagsmönnum og opinberum aðilum þegar veita þarf upplýsingar um frístundahúsabyggðina.

Reikningar voru lagðir fram. Kom fram að rekstrartap ársins hefði verið 899.178,- 

Umræður voru um skýrslu og reikninga.

Reikningar og skýrsla stjórnar voru samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Stjórnin lagði til að ársgjöld yrðu óbreytt eða 4000kr. fyrir einstakling en 2000kr. fyrir félög, þ.e. hvern einstakling í félagi. 

Samþykkt að hafa árgjald óbreytt.

Bent Einarsson vildi frekar auka þjónustuna og greiða hærra árgjald.  Taldi að það væri mikilvægt að styrkja rekstur sambandsins.

Formaðurinn svaraði því þannig að stjórninn treystir sér ekki að hækka árgjald. Það liggur fyrir að félagar í félögum vilja ekkir greiða hærra gjald.

Ólafur Örn spyr um skiptingu á gjöldum til félagsins annars vegar einstaklinga og hins vegar félög. Sveinn svarar 2/3 félög og 1/3 einstaklingar.

Kosningar fóru fram. Sveinn Guðmundsson var kosinn formaður. Ingunn Lára Hannesdóttir og Óskar Guðjónsson voru kosin meðstjórnendur til tveggja ára. Fyrir sitja í stjórn Sigrún Jónsdóttir og Jónbjörg Sigurjónsdóttir. Varamenn í stjórn voru kosnir, Guðmundur Guðbjarnason, Einar N. Nikúlásson og Ægir Frímannsson.  Pétur Jónsson var kosinn endurskoðandi.

Undir liðnum önnur mál ræddi Ólafur Ólafsson um sorphirðumál. Sveinn benti á það að víða er brotið á sumarhúsaeigendum í sorphirðumálum t.d. brýtur Bláskógabyggð á frístundahúsabyggðinni þrátt fyrir úrskurð frá fyrri tíð þar sem þeim hefur verið skylt að setja gáma í nánd við frístundahúsasvæðin. Rotþróarmál voru rædd.  Þá var rædd sú hugmynd að lækka stuðulinn á fasteignagjöldum á sumarhúsum í 0,3 og fá leiðréttingu á söluhagnaði sumarhúsa og hafa hann eins og á íbúðarhúsum.

Aðrir sem tóku til máls undir þessu lið var Oddur Magnússon, og spurði um gagnagrunn vegna félaga og heimasíðuna. Þorgeir Ástvaldsson ræddi um  öryggisnúmerakerfið og  taldi það nauðsynlegt að endurnýja það verkefni. Eldvarnir vegna sumarhúsa og rýmingaráætlun voru rædd. Ögmundur Kristinsson ræddi um  mögulegan rétt sumarbústaðaeigenda þegar Airbnb er til staðar í frístundahúsabyggðinni. Páll Breiðfjörð spurði um nálgun félagaskrárinnar.

Formaðurinn lagði að lokum áherslu á að breyta verður lögum um söluhagnað á sumarhúsum, ennfremur tryggja að öryggisnúmer verði á öllum sumarhúsum og 0,3 verði hæðsti stuðull vegna fasteignagjalda. Fjölgun verður að eiga sér stað í Landssambandi sumarhúsaeigenda ef þjónustan eigi að aukast á komandi tímum sem er lífsnauðsyn fyrir frístundahúsayggðina, því sótt er að réttindum og hagsmunum sem verður að vernda og verja.